• Anna

Hátíðir & hversdagsleikinn.

Hátíðir leiða ástvini saman. Hvort sem það eru jól, afmæli, páskar eða jafnvel Valentínusardagur þá eru hátíðir tákn um margar minningar með fólkinu sem við elskum. Hátíðarnar geta verið mismunandi fyrir okkur öll. Með mismunandi hefðum, merkingu og minningum.

Þegar við missum nákominn ástvin þá eru það þessir stóru dagar sem geta reynst okkur erfiðir. Jafnvel aðdragandinn byggir upp stress fyrir þeim dögum sem framundan eru, hnútur í magann fram að deginum sjálfum og svo hellist sorgin yfir. Eða hvað? Það þarf ekkert að vera, og gerist ekkert endilega hjá öllum. Stundum er aðdragandinn jafnvel bara það erfiða. Svo kemur að deginum og hvað þá….


Okkar reynsla er sú að hátíðarnar eru vissulega erfiðar, en maður er kannski svolítið undirbúin fyrir það. Það er mikið rætt og aðrir sem hafa reynslu tala um þessa daga sem eitt það erfiðasta. Það er svolítið búið að stimpla því inn hjá okkur að þetta séu erfiðustu tímarnir og að það sé gott að vera vel undirbúin. Það er alveg eðlilegt og auðvitað algengt að þessir dagar hafi áhrif á syrgjendur og því skiljanlegt að þetta sé það sem við búumst við og er talað um.

Oft eru það hversdags hlutirnir sem eru alveg jafn erfiðir... jafnvel erfiðari. Þeir hellast yfir mann, stundum manni alveg að óvörum. Það á kannski sérstaklega við um makamissi og talað út frá okkar reynslu, þar sem maki er partur af öllu sem maður áður gerði, alla daga – allan daginn.


Það er svo margt hversdagslegt sem vekur upp minningarnar. Uppáhalds sósan í ísskápnum minnir okkur á viðkomandi. Sólin skín og við hefðum grillað á þessum fallega degi eða skellt okkur í snögga jeppaferð. Uppáhalds maturinn, uppáhalds nammið og ekki má gleyma ákvörðuninni sem allir elska – hvað á að vera í matinn?

Þú sérð ein/einn um bæði stórar og litlar ákvarðanir varðandi heimilið, börnin eða bara lífið sjálft. Ákvarðanir þar sem aðilinn sem er farinn hefði spilað stórt hlutverk í. Nú situr þú ein/einn eftir með allar minningarnar, allar ákvarðanirnar og lífið er að eilífu breytt. Það lærist að sjálfsögðu með tímanum að tækla þessi augnablik betur, en þau hætta aldrei að koma. Þau munu alltaf fylgja okkur en við verðum bara betri í að taka á móti þeim.


Það er enginn slæmur tími til að skapa rými til að muna. Minningarnar veita manni hlýju og eru í raun það mikilvægasta sem við eigum.


Okkar ráð : - Leyfðu þessum augnablikum að koma – ekki loka á þau, þá koma þau bara seinna með meiri skell. Tökum á móti þeim eins og þau koma en ekki dvelja of lengi við. Við þurfum að sjá þau, finna fyrir þeim og sleppum svo tökunum.


- Láttu þér líða sem best þennan dag sem er í vændum. Það er allt í lagi að búast við því að hann geti verið erfiður og taka honum eins og hann kemur. En mögulega undirbúa daginn á góðan hátt, gera eitthvað fallegt og gott á þessum dögum.


- Hugsaðu vel um þig bæði líkamlega og andlega. Gakktu úr skugga um að þú fáir mikla hvíld, borðir hollan mat og hreyfir þig í að minnsta kosti hálftíma á dag. Það getur verið gott að skipuleggja sig fyrirfram og halda sig við þá rútínu sem maður setur sér.


- Ekki setja óþarfa pressu á þig. Þú þarft ekki að vera sá/sú sem heldur matarboðið, skipuleggur samkomur eða mætir yfir höfuð, nema þú viljir. Fólkið sem elskar þig mun skilja ef þú hefur minni orku. Tökum meðvitaðar ákvarðanir um að stjórna streituvöldum í kringum okkur.


- Fáðu hjálp! Þegar þú syrgir ástvin mundu að þú ert ekki að ganga í gegnum það ein/nn. Mundu að segja „já“ þegar vinir þínir eða fjölskylda bjóða fram aðstoð sína eða stuðning. Treystu á þína nánustu til að tjá þig um tilfinningar þínar.


Til ykkar aðstandenda :

Gott er að hafa bakvið eyrað að flestir muna eftir hátíðardögunum, afmælisdögum, dánardögum… þessum stóru dögum. Það þarf ekki meira en lítil skilaboð á þessum dögum, sem segja manni að þú vitir hvaða dagur er. Að þú vitir að dagurinn gæti orðið syrgjandanum erfiður og að þú sért að hugsa til hans.

En gleymum ekki að það sem eitt sinn var fegurðin í hversdagsleikanum getur nú verið sorgin í hversdagsleikanum. Ástvinur þinn þarf á þér að halda sama hvort það séu jól eða bara venjulegur þriðjudagur.


150 views0 comments

Recent Posts

See All