Marble Surface
DSC01590.jpg

Sagan okkar

  


Á bakvið fyrirtækið eru tvær bestu vinkonur sem eiga það sameiginlegt að hafa gengið í gegnum það að missa maka ungar og vilja hafa áhrif á það hvernig aðstandendur þeirra sem ganga í gegnum erfiðleika geta verið til staðar.

Við heitum Anna Lilja og Anna Sigga og höfum verið bestu vinkonur frá því við vorum 16 ára gamlar. Árið 2013 missti Anna Sigga unnusta sinn, mjög skyndilega, þá aðeins 23 ára gömul. Í maí 2020 missti svo Anna Lilja unnusta sinn og barnsfaðir, nýorðin þrítug. Eins erfitt og það er að hafa báðar gengið í gegnum makamissi þá er það okkur svo ótrúlega dýrmætt að eiga hvor aðra að. Við höfum getað leitað til hvor annarrar með ráð og rætt um allt milli himins og jarðar, því við vitum svo innilega hvað hin manneskjan skilur vel.

Í gegnum okkar reynslu höfum við kynnst því að sorgarferlið sem fylgir því að missa nákominn ástvin getur verið ansi flókið. Sumir dagar eru ósköp venjulegir en aðrir geta verið svo erfiðir að þeir virðast óyfirstíganlegir. Þessa erfiðu daga er mikilvægt að fjölskylda og vinir séu til staðar fyrir mann (og við fengum svo sannarlega að kynnast því að það vilja allir allt fyrir mann gera!). En að vera til staðar á réttu tímapunktunum — á dimmustu dögunum  er bara ekki svo einfalt. Okkar reynsla er sú að dimmu stundirnar koma einmitt þegar maður er einn, en ekki af því að maður er einn. 

Eftir öll okkar samtöl og stundir saman kviknaði sú hugmynd að við gætum nýtt okkar reynslu til góðs og hjálpað syrgjendum og aðstandendum syrgjenda. Bæði með fræðslu og búið til einhverskonar verkfæri (Til staðar boxin) sem hjálpar aðstandendum að vera til staðar fyrir ástvini sína á þeim tíma sem þeir þurfa mest á því að halda. Þegar þeir eiga dimman dag og einmanaleikinn hellist yfir.